Guitar Islancio- Best of Guitar Islancio
Guitar Islancio
Að kvöldi síðustu aldar tendruðu tveir snillingar elda þá sem allr götur síðan hafa vermt hjörtu tónlistarunnenda um víðan heim og vísað mörgum leiðina að gullkistu íslenskrar þjóðlagahefðar.
Björn Thoroddsen hafði leikið ásamt Gunnari Þórðarsyni með Ríó tríóinu um nokkura ára skeið, þar fengu þeir að kynnast íslensku þjóðlagahefðinni. Sú hugmynd kviknaði hjá Birni Thoroddsen að setja saman gítarband sem sækti efni í smiðju íslenskra þjóðlaga en nálgaðist efnið með nýjum og ferskum hætti. Hann bar þessa humynd undir Gunnar Þórðarson sem var auðfús til samstarfs.
Björn vildi að bandið bæri nafn sem tengdist gíturum. Kona Gunnars, Toby Sigrún Herman, botnaði þá hugmynd með nafninu Guitar Islancio. Orðið Islancio er úr ítölsku tónlistarmáli og þýðir ákafi eða ofsi, að leika með ákafa = con islancio. Hljómur orðsins minnir einnig óneitanlega á Ísland, því er nafnið í senn bæði músíkalskt og „íslenskt“.
Þeir buðu Jóni Rafnssyni strax í upphafi að taka stöðu bassaleikara í tríóinu og reyndist það hið mesta heillaráð. Ekki aðeins að Jón væri afbragðs bassaleikari heldur hefur hann alla tíð verið mjög virkur í hugmyndavinnu á gifturíkum ferli Guitar Islancio. Fyrstu hljómplötu
Guitar Islancio var geysivel tekið. Gagnrýnendur kepptust við að lofa snilldarlega spilamennsku þeirra félaga og djassskotna meðhöndlun þeirra á þjóðlögunum.
Tónlistarunnendur létu ekki sitt eftir liggja og náði Guitar Islancio I gullsölu, fyrst íslenkra „instrumental“ djassplatna. Fjórar plötur fylgdu í kjölfarið næsta áratuginn og hljómleikaferðir um heim allan, Norðurlöndin, Þýskaland, Frakkland, Spánn, England, Bandaríkin, Kanada, Kína og Japan.
Alls staðar hefur þessum sendiherrum íslenskra menningar verið tekið opnum örmum. Tónmálið er í senn alþjóðlegt en samt svo unaðslega íslenskt.
Á þessum sextán laga diski eru öll bestu lögin úr safninu ásamt nýrri útgáfu af Tango Björns Thoroddsen; þar leikur nýjasti meðlimur tríósins, Hjörtur Steinarsson.
Það hefur verið mín ánægja og stolt að fá að vinna með þessum heiðursmönnum, fá að leggja hönd á plóginn við útgáfuna, ferðast með þeim til framandi landa og finna hvað tónlist þeirra félaga í Guitar Islancio á góðan hljómgrunn á ólíkustu menningarsvæðum. Njótið vel.
Óttar Felix Hauksson